top of page

Hvaða pallaefni á ég að nota?

Updated: Mar 31, 2023


Siggi á númer 12 sagði að það væri langbest að nota lerki til að klæða pallinn! Svo sagði Stjáni í næstu götu að það væri ekkert vit í öðru en harðviði. Hvað er flottast? Hvað er praktískt? Hvað kostar þetta? Kannski langar mann bæði í pall og að komast til sólarlanda í sumar. Þá vandast málið!





Garðurinn á að vera staður til að sitja í sólinni, grilla, liggja í heitum potti, sötra uppáhaldsdrykkinn og njóta þess að anda að sér fersku íslensku lofti. Garðeigandi á ekki að vera þjakaður af martöðum um viðhaldið í sumar, heldur á hann að njóta til hins ítrasta í praktískum og fallegum garði. Nóg um það! 


Hvaða pallaefni á ég að velja?

Fura er langalgengust sem pallaklæðning og hefur verið fáanleg lengi. Lerki og harðviður hafa verið í almennri sölu í rúman áratug og því er rétt núna að komast reynsla á þessar viðartegundir. En hvernig veðrast og eldast mismunandi viðartegundir? Er einhver viðartegund sem er viðhaldslaus og endist að eilífu? Því miður er niðurstaðan sú að viðhald er óumflýanlegt. Eina leiðin til að losna við það alveg er að nota plast. Plastið er endingargott og vandaðri tegundirnar eru unnar úr gríðarlega sterku trefjaplasti, sem þolir bæði slit og veðrun. Það hefur þó þann ókost að geta upplitast fyrir áhrif sólarljoss. Þess vegna hafa sumir endað á því að mála það til þess að fríska upp á litinn. Plastið er þó fínn kostur, ef pallurinn á að vera í ljósum eða gráum lit sem þolir vel við upplitun sólar. 


Harðviður og lúxusútlit



Ef harðviðarpallur er látinn veðrast, óvarinn, fær hann á sig silfurgráan lit. Til að halda upprunalega djúpa brúnrauða viðarlitnum er gjarnan borin á hann olía með smá lit. Harðviðurinn hefur einhvern veginn yfir sér luxusyfirbragð, hvort sem hann er litaður eða grár. Litabrigði sjást vel og þegar viðurinn blotnar kemur fram sterkur tónn. Ef pallurinn hefur gránað er það tilkomið vegna áhrifa sólarljóss. Þegar pallur úr harðviði stendur óvarinn brýtur sólarljósið niður ysta lagið og myndar gráma. Óvarinn getur slíkur pallur enst vel einn eða fleiri áratugi. Viðurinn kemur þó alltaf til með að þorna og jafnvel springa, og er því mælt með því að bera viðarolíu á klæðninguna á nokkurra ára fresti. Ef halda á silfurgrámanum er notast við glæra olíu. Ef viðarliturinn á að halda sér þarf lit til þess að verja frá niðurbroti sólarinnar og styrkja þannig náttúrulegan lit viðarins.


Lerki, harður eða mjúkur viður?



Lerki er stundum ranglega nefnt harðviður. Lerki telst þó til mýkri viðartegunda en vegna þess hversu þétt það er þá hefur það vörn gegn fúa. Eins og með harðviðinn þá er best að bera á viðarolíu á þetta efni og ef grátt er óskaliturinn þá er rétt að hafa olíuna glæra. Norðmenn nota gjarnan greni þegar þeir sækjast eftir náttúrulegri veðrun, það hefur þétta árhringi og æðarnar lokast frekar en að opnast við sögun. Það gildir þó sama með grenið, að nota glæra olíu ef það á að haldast grátt og jafnframt endast vel. Því miður vegna aðstæðna í heiminum þá hefur framboð á lerki, sérstaklega frá Síberíu, stórlega dregist saman.


Fura og mikilvægi sólarlandaferða



Af hverju endar það oftast með því að pallurinn er klæddur með furu? og oftast með borðum sem eru rétt tæpleg 100 mm breið. Stærsta ástæðan er án nokkurs vafa verðið og það sem kaupa má fyrir mismuninn. Alhefluð gagnvarin borð sem eru 27 mm x 95 mm eru framleidd í miklu magni og því hagkvæm í innkaupum. Garðeigandinn nýtur góðs af því og getur þannig smíðað pall, sem er mun stærri en ef greiða þyrfti metraverð harðviðar. Það sem margir vita ekki er að furan hefur þrjá kosti umfram margar aðrar viðartegundir. Þetta er mjúkur viður og því þarf ekki sérstök verkfæri til að saga, bora og snara úr fyrir skrúfuhausum, eins og þarf með harðviðinn. Það er því þægilegt fyrir þá sem ætla að smíða sjálfir. Furan tekur lit alveg sérstaklega vegna þess hvernig viðurinn drekkur í sig olíuna. Það má einnig láta furuna grána en þá er borin glær olía á pallin. Furan er líka fáanleg í fleiri stærðum og því hægt að hafa borðin breið eins og á bryggju eða jafnvel misbreið til að gefa líflegt útlit.




Mikið úrval hjá Söginni


Á Smiðjuvegi er fyrirtækið Sögin sem sérhæfir sig í sérútfærslum í timbri og innflutningi á vönduðum timburtegundum. Í Söginni finna þeir sem vanda vilja til verks í garðinum og nota gæða efni það sem þeir þurfa til verksins. Við ætlum að segja ykkur frá fjórum vönduðum valkostum úr því mikla úrvali sem Sögin bíður uppá.


Kebony er yfirleitt framleitt úr radiata furu (pinus radiata). Furan er meðhöndluð með lífrænum efnum og hitameðhöndluð. og þannig fær Kebony sinn meðaldökkbrúna lit. Vegna aðferðarinnar sem notuð er til að búa til Kebony er það meðaldökkbrúnt á litinn og nær svipaðri hörku og algengar harðviðartegundir.

Þrjátíu ára ábyrgð er á Kebony og það þarfnast einskis viðhalds fyrir utan hefðbundin þrif. Ef Kebony er látið í friði gránar það í sólarljósi og verður fallega silfrað á litinn.


Listaverð per fm í mars 2022:

Kebony 23x120 kr. 16.329


Accoya er einnig úr radiata furu og skorið úr 30 ára gömlum trjám. Accoya er hita- og efnameðhöndlað og nær vörnin í gegnum allan viðinn. Því má saga og vinna með þetta efni eins og hver vill en vinnuaðferðin lokar öllum æðum í viðnum og kemur í veg fyrir að timbrið geti dregið inn í sig raka. Vegna meðhöndlunarinnar hefur veggjatítlan engan á huga á þessu timbri svo það er veggjatítlufrítt. Fyrirtækið sem framleiðir Accoya bíður upp á tvenns konar ábyrgð, annars vegar 50 ára ábyrgð ef timbrið er utandyra en ekki í jörðu og 25 ára ábyrgð ef það liggur ofan í jarðvegi. Hægt er að fá Accoya litað.


Listaverð per fm í mars 2022:

Accoya 21x120 kr. 15.163

Accoya grátt 21x120 kr. 16.963


Ipe – er Rollsinn í harðviðarpallaefni. Ipe er unnið úr handroanthus tré (áður Tabebuia) sem kallað er brasilísk valhneta. Ipe er mjög hart og þungt og erfitt að vinna með það en þar getur sérstakt smellukerfi frá Söginni komið sterkt inn ef aðeins á að nota efnið í pallayfirborð. Liturinn getur verið líflega dökkrauðbrúnn í nokkrum litatónum en fær á sig fallegan silfurgráma ef það er látið ómeðhöndlað.


Listaverð per fm í mars 2022:

Ipe 21x120 kr. 21.541


Bambus frá MOSO er þjappaður bambus úr sjálfbærri, umhverfisvænni ræktun. Eiginleikum efnisins svipar mjög til vandraðra harðviðartegunda en bambusinn er harður, slit- og eldþolinn og einnig er hita- og rakaþensla í lágmarki. Liturinn er yfirleitt svarbrúnn, hann lýsist í sólarljósi og verður fallega silfurgrár með tímanum. Framleiðsluaðferðin býður upp á að fá mismunandi stærðir á rifflum í yfirborð en rifflur eiga t.d. vel við í yfirborð göngubrúa og á svæði sem notuð eru allt árið um kring.


Listaverð per fm í mars 2022:

MOSO XTR 21x120 kr. 13.368

MOSO XTR 21x155 kr. 13.715

MOSO END 21x120 kr. 13.368

MOSO END 21x155 kr. 13.715


NEKKO – Sögin býður upp á vandað pallaefni frá fyrirtækinu Nekko sem er sambland af viðartrefjum og plasti. Um er að ræða gegnheilar fjalir en slíkt plastefni er mjög álagsþolið og endingargott. Þó ber að hafa í huga að eins og viður þá upplitast og gránar efnið í sólarljósi. Þess vegna mælum við með að nota gráa tóna til þess að litabreytingar verði fallegar. Annar kostur plastefnis er hversu auðvelt er að þrífa það. Auk þess er engin hætta á að fá í sig flísar úr yfirborðinu. Rétt er að segja frá því að einnig er til plastefni með holrýmum sem gera efnið léttara og því ódýrara í flutningi en ekki jafn slitsterkt.


Listaverð per fm í mars 2022:

NEKKO 24x145 16.539


Niðurstaðan





Hver er svo niðurstaðan? Ef þú vilt sérstaklega stóran pall og jafnvel eiga afgang fyrir sólarlandaferð þá ferðu í furuna. Ef þú vilt lúxusútlit og létt viðhald þá er úrvalið það mikið að það er auðvelt að fá valkvíða.


Takk fyrir að lesa :-)




Recent Posts

See All

Comments


bottom of page