top of page

Straumar og stefnur í garðhönnun 2025


Það er spennandi að fylgjast með þróun garðhönnunar og hvernig hún aðlagast þörfum og tíðaranda hvers tíma. Árið 2025 sjáum við skýra stefnu í átt að því að garðarnir verði lifandi hluti af heimilinu og spegill af lífsstíl okkar. Hér eru nokkrar áhugaverðar stefnur sem gefa tóninn fyrir næstu ár.


Garður eins og vel skipulögð íbúð


Garðurinn stækkar heimilið

Garðar taka í auknum mæli á sig eiginleika sem minna á vel skipulagðar íbúðir. Þægileg húsgögn, veðurþolin púðar og hlýleg lýsing gera það jafn eðlilegt að njóta góðrar bókar úti í garði og að henda sér upp í sófann heima. Flæðandi skipulag þar sem svæðin tengjast vel og hvert horn hefur sitt hlutverk – matargerð, samveru og afslöppun – tryggir að garðurinn verði miðpunktur útivistar allt árið.


Skjólsælt svæði með potti og kósíhorni

Skjól fer aldrei úr tísku

Garðar fyrir allar árstíðir eru í forgrunni, og skjólveggir, yfirbyggð svæði og öflugir útikamínur gera það að verkum að það er jafn notalegt að njóta garðsins í snjókomu eins og á sólríkum sumardegi. Heiti potturinn og gufubaðið fá aukna notkun á veturna, og mild lýsing ásamt sígrænum gróðri skapar hlýlegt og praktískt rými allt árið.


Betri stofan í garðinum

Gróðurhús sem athvarf

Gróðurhús eru ekki lengur aðeins fyrir ræktun heldur einnig staður til afslöppunar. Með þægilegri setustofu, góðri upphitun og fallegri hönnun getur gróðurhúsið orðið lítið athvarf, hvort sem þú vilt lesa, rækta eða einfaldlega slaka á – jafnvel þegar veðrið er ekki upp á sitt besta.


Útieldhús á sterum

Útieldhús á sterum

Útieldhús hafa orðið lykilatriði í garðhönnun. Gasgrill, pizzaofnar, borðsvæði undir þaki og upphituð svæði gera það að verkum að hægt er að elda og njóta með fjölskyldu og vinum allt árið. Lýsing og vel útfærð skipulagning tryggja að þessi samverustaður verði miðpunktur hvers garðs.


Krossfitt, jóga og hugleiðsla

Heilsurými í garðinum, hvort sem það er fyrir krossfitt, jóga eða hugleiðslu, verða sífellt algengari. Tartangólf eða gervigras henta fyrir æfingar, á meðan vatnshljóð, ilmandi gróður og róandi umhverfi skapa fullkomin skilyrði fyrir hugleiðslu. Hönnunin þarf að taka mið af notkun hvers og eins til að tryggja að rýmið sé bæði fallegt og hagnýtt.


Golf, boccia eða jógaæfingar

Grasflötin fær nýtt hlutverk

Grasflötin er ekki lengur bara til skrauts heldur leikur hún lykilhlutverk sem rými fyrir boccia, krokket eða golfæfingar. Hvort sem um er að ræða lifandi gras eða gervigras, tryggir þessi nýting að flötin fær aukið gildi sem félagslegt og skemmtilegt svæði.


Er mosinn að fá uppreisn æru?

Náttúruleg efni eins og mosi, lyng, íslenskur gróður og náttúrusteinar verða í lykilhlutverki árið 2025. Þessi efni gefa garðinum róandi og náttúrulegt yfirbragð sem endurspeglar íslenskt landslag, jafnvel í miðri borg.


Það er heillandi að sjá hvernig garðhönnun endurspeglar breytta lífsstíl og drauma okkar. Þróunin býður upp á óteljandi möguleika, og við hönnuðir og garðeigendur höfum ótrúlegt tækifæri til að skapa græn svæði sem gleðja bæði okkur sjálf og umhverfið.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page